139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Reyndar ætlaði ég í ræðu minni á eftir að gera ítarlega grein fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs, sem lögð var fram í febrúarmánuði árið 2009. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á, að Framsóknarflokkurinn hefði lagt fram tillögur akkúrat um aðgerðir til afnáms gjaldeyrishafta. Nú eru að verða liðin tvö og hálft ár síðan þær tillögur voru lagðar fram. Þær fengu ekki hljómgrunn af hálfu stjórnarliða frekar en málflutningur hv. þm. Lilju Mósesdóttur í mörgum málum og þá síst af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég mundi vilja fá að heyra frá hv. þingmanni hvort ekki væri betra fyrir umræðuna um þetta mikilvæga mál að einhverjir úr röðum stjórnarliða mundu koma og gera grein fyrir nefndaráliti meiri hlutans auk formanns nefndarinnar því að það er enginn á mælendaskrá.