139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er merkilegt að Seðlabankanum skuli ekki hafa tekist eftir tvö og hálft ár að skilgreina aflandskrónuvandann. Hverju það sætir veit ég ekki en mér finnst það mjög skrýtið.

Hvað varðar fulla innstæðutryggingu er hún ein ástæðan á bak við aflandskrónuvandann. Hún er ástæða þess að við erum með innlendar skuldbindingar sem þarf að rýra í virði vegna þess að aflandskrónueignirnar, eins og ég sagði áður, voru notaðar til að fjármagna bólueignir sem hafa hrunið í verði.

Það voru mikil mistök að tryggja innstæður að fullu. Jafnframt tel ég að það sé mjög mikilvægt að takmarka innstæðutrygginguna við eins lága upphæð og mögulegt er. Mér finnst, frú forseti, það að hækka lágmarksupphæð innstæðutryggingarinnar úr rúmum 3 millj. kr. upp í 16 millj. kr. vera allt of stór biti fyrir jafnlítið hagkerfi og það íslenska. Ég hef reyndar fengið þær upplýsingar að í löndum sem eru með þessa 16 millj. kr. lágmarksinnstæðutryggingu, eins og Írland, hafi ekki tekist að afnema fulla ríkisábyrgð á innstæðum þrátt fyrir svo miklu hærri lágmarksupphæð en við höfum nú. Það að hækka lágmarksupphæðina úr rúmum 3 millj. kr. í 16 millj. kr. mun ekki tryggja það að við getum afnumið ríkisábyrgðina eða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fulla innstæðutryggingu.