139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að heyra hugleiðingar þingmannsins um það hvers vegna hún telji að ríkisstjórnin hafi ekki gripið tækifærið með skattstofninn fegins hendi þar sem leitað er hér í öllum vösum að nýjum skattstofnum og ríkisstjórnin hefur alveg látið tillögu þingmannsins fram hjá sér fara.

Ef við förum yfir þetta eru inneignir 185 milljarðar. Innstæður í Seðlabankanum nema um 60 milljörðum. Skuldabréf sem eru löng ríkisbréf og bréf frá Íbúðalánasjóði nema um 220 milljörðum. Samtals eru þetta 465 milljarðar. Er ekki verið að útbúa með lengingu gjaldeyrishafta kerfi fyrir vandamál sem er ekki eins stórt og látið er að liggja vegna þess að helmingurinn af þessari upphæð er bundinn hér til langs tíma?

Og mig langar til að spyrja þingmanninn að þessu: Seðlabankinn fór í útboð í dag og það bárust tilboð að fjárhæð rúmlega 60 milljarðar, sem er nákvæmlega það (Forseti hringir.) sem innstæður í Seðlabankanum eru — telur þingmaðurinn að þetta sé sá þrýstingur sem um ræðir (Forseti hringir.) frá aflandskrónueigendum (Forseti hringir.) að fara úr landi eða er (Forseti hringir.) vandinn langtum stærri?