139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekkert rannsakað það sérstaklega hvort raungengið sé of lágt en flestum greiningardeildum bankanna og Seðlabanka ber saman um að það sé of lágt og hafa nefnt að bilið sem hv. þingmaður nefndi sé 20–30% of lágt. Það er reyndar tilfellið í flestum löndum sem hafa tekið upp fjármagnshöft að raungengið er of lágt til að byrja með en fer síðan hækkandi, m.a. vegna þess að gjaldeyrishöftin tryggja útflutningsgreinunum mikinn tekjuauka og ef hann er ekki skattlagður, eins og ég hef lagt til að við gerum í síðasta lagi núna um áramótin, mun hann fara í að hækka laun í þessum geira sem mun þýða meiri eftirspurn og aukinn verðbólguhraða.

Varðandi þessa skattlagningu er það náttúrlega ánægjulegt að ég hafi giskað á rétta prósentu en hugmyndin að þessum 30% skatti kom í raun og veru frá löndum eins og Malasíu og Indónesíu sem byrjuðu með 30% og lækkuðu prósentin ef erlendu eigendur innlends gjaldmiðils voru tilbúnir að fjárfesta í einhvern tíma. Ég held reyndar að við ættum að fara hærra en 30%, eins og ég sagði fyrr í umræðunni. Ég held að við ættum jafnvel að byrja í 80% en lækka prósentuna mjög hratt til að vera viss um að gengið lækkaði ekki.

Við þurfum lágt raungengi til að vera samkeppnisfær. Það er mjög mikilvægt að afla útflutningstekna núna til að geta (Forseti hringir.) staðið straum af þeirri skuldsetningu sem er á þjóðarbúinu.