139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þær upplýsingar sem þessi uppboðsmarkaður gefur okkur um þrýstinginn á krónuna tel ég að þær upplýsingar séu mjög ófullkomnar vegna þess að magnið sem er verið að bjóða upp er mjög takmarkað. Við erum næstum því í sömu stöðu og að vera með boð og bönn til að takmarka magnið. Ég held því að við þurfum að halda nokkur uppboð til viðbótar til að geta áttað okkur á því hve stórar fjárhæðir munu fara út úr hagkerfinu.

Hvað varðar upptöku annars gjaldmiðils hef ég alltaf haldið því á lofti að við þyrftum gjaldmiðil sem er veikur þegar íslenska hagkerfið þarf á veikum gjaldmiðli að halda og sterkur þegar hér er þensla. Sá gjaldmiðill sem uppfyllir þær kröfur er sænska krónan af öllum þeim gjaldmiðlum sem eru í nágrannalöndunum.