139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að sagan ætti að geta kennt okkur eitthvað í þessum efnum. Ég vitnaði til þess þegar ég hélt ræðu 28. nóvember 2008 þegar höftin voru sett klukkan að verða 4 um nótt. Þá kom fram í því frumvarpi sem lagt var fram, með leyfi frú forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði í samráði við viðskiptaráðherra heimilt fram til 30. nóvember 2010 að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga.“

Höftin áttu ekki að vara í nema nokkra mánuði. Nú eru liðin hátt í þrjú ár, ég held að það séu tvö ár og átta eða níu mánuðir, frá því að losa átti um gjaldeyrishöftin í síðasta lagi, eins og þau voru sett fram upphaflega. Það virðist framlengjast endalaust og þegar menn tala um að 31. desember 2015 sé einhver dagsetning þarna hræðir sagan mig í þeim efnum.