139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Er einhver tilgangur í því að fresta málinu í nokkra mánuði ef sami aðilinn á að koma með snilldarlausnirnar eins og við höfum verið að fjalla um málið undanfarin ár? Er ekki rétt að menn færu að leita að snilldarlausnum utan Seðlabankans? Jafnvel innan þingsins eru menn sem hafa hugmyndir og við skoðuðum hvernig við gætum leyst þetta, framlengt þessa dagsetningu fram til nóvember og aflétt höftunum þá eftir að hafa tekið upp tvöfalt gengi, skattlagningu eða þá ríkisstyrkt verðbréf sem bæði mætti selja fyrir krónur og evrur, mundi bindast tvöföldu gengi til að byrja með. Við mundum sem sagt losa nægilega mildilega um þessa snjóhengju svo að við getum aflétt höftunum í nóvember.