139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagðist vonast til þess að ríkisstjórnin mundi ekki reka fyrirtækin úr landi en ég tel að reynslan sýni nú að hæstv. ríkisstjórn virðist oft og tíðum vera umhugað um að gera það. Ég minni á fólksflutningana í því sambandi vegna þess að hér er ekki skapað neitt, hér er allt í frosti og það virðist ekkert vera gert til að koma efnahagslífinu í gang.

Miðað við þær umsagnir sem ég les um frumvarpið, það er alveg sama hvort þær koma frá Samtökum atvinnulífsins eða öðrum, vara nánast allir við þeim afleiðingum sem frumvarpið, verði það að lögum, getur haft. Hverja telur hv. þingmaður ástæðuna vera? Við heyrum hvernig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talar, eins og hv. þingmaður benti á í sinni ræðu og er alveg með eindæmum, þ.e. að gjaldmiðillinn sé ónýtur. Gæti þetta hugsanlega verið einhver vegferð hjá Samfylkingunni til að koma okkur endanlega inn í Evrópusambandið með því að fara þvert gegn (Forseti hringir.) öllum þeim álitsgjöfum sem fjalla um frumvarpið?