139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að þessi tilgáta hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur passi afskaplega vel við raunveruleikann og það sem við sjáum í þessu máli. Við heyrum líka að talsmenn Samfylkingarinnar koma hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að gjaldeyrishöftin séu vissulega slæm, þetta sé allt ómögulegt. (Gripið fram í.) Við erum að gera það sem við viljum ekki gera, segja þeir. Við kærum okkur ekki um þetta, aðstæður eru bara þannig að við þurfum gjaldeyrishöft þangað til við komumst í öruggt skjól hjá Evrópusambandinu og tökum upp evruna. Þetta er söngur sem við heyrum afar oft. Ég minni reyndar á að það er eiginlega alveg sama hvaða mál kemur upp, hv. þingmenn Samfylkingarinnar reyna alltaf að snúa því þannig að það færi einhver rök í hendurnar fyrir aðild að Evrópusambandinu. Og í hvert skipti sem einhver af þessum rökum eru hrakin, afsönnuð, þá er eitthvað nýtt tínt til svo að það passi við trúarsetningarnar.