139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið var þetta sönn og góð ræða því að svona er staðan. Um leið og Evrópusambandsandstæðingar hrekja fátækleg rök Samfylkingarinnar og Evrópusinna eru bara fundin upp einhver ný rök sem halda ekki vatni.

Það má hæglega kalla þetta blekkingarleik sem við stöndum nú frammi fyrir og ræðum í frumvarpsformi, álíka mikinn blekkingarleik og Samfylkingin beitti þingmenn þegar verið var að ræða sjálfa Evrópusambandsumsóknina. Þá kom samfylkingarþingmaður eftir samfylkingarþingmann fram og sagði að um leið og búið yrði að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu mundi birta til í íslensku efnahagslífi og sólin færi að skína. Krónan átti að styrkjast, við áttum jafnvel að fara að sjá glitta í evruhalann og við það eitt að umsóknin færi inn mundi þetta allt saman smella saman.

Frú forseti. Síðan hefur ríkt kyrrstaða enda var um fullkomna blekkingu að ræða.