139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess að ég sakna hæstvirtra ráðherra við þessa umræðu. Ég hafði jafnvel gert ráð fyrir því að beina til þeirra spurningum og því væri gott að sjá til þeirra. Nú er mér kunnugt um, eins og hæstv. forseti lýsti, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. forsætisráðherra eru í húsinu en gott væri að hafa þá viðstadda umræðuna. Sama á við um hv. formann efnahags- og skattanefndar en stundum er því borið við í umræðum hér í þinginu, þegar kallað er eftir ráðherrum, að mál séu á forræði nefndar — hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hv. formaður efnahags- og skattanefndar ganga í salinn og þakka ég þeim fyrir að bregðast skjótt við.

Ég ætla að lýsa því í upphafi að mér finnst það vera vonbrigði að við skulum nú ræða frumvarp sem felur ekkert annað í sér en að festa gjaldeyrishöft í sessi til ársloka 2015 í stað þess að ræða það hvernig við ætlum að aflétta höftunum og þá mun hraðar en sú áætlun sem Seðlabankinn og efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafa sett fram felur í sér. Ég held að það væri miklu betra fyrir okkur að velta því fyrir okkur og nota þann tíma sem þingið hefur til að fjalla um þessi mál til að ræða lausnir sem skila okkur árangri hraðar en áætlun Seðlabanka og efnahags- og viðskiptaráðuneytis reiknar með. Þess í stað er sú leið farin að festa í lög þær hömlur sem nú eru til staðar, reyndar með óljósum áformum um að gengið verði hraðar til verks en sá tímafrestur segir til um sem um er getið í frumvarpinu, en engu að síður er þá verið að festa í sessi höftin frekar en að aflétta þeim. Það finnst mér slæmt, það finnst mér galli og vísa ég til þess sem margir hv. þingmenn hafa áður sagt um galla, ókosti og þau vandamál sem fylgja höftunum.

Ég sagði að frumvarpinu fylgi yfirlýsingar um að stefnt sé að því að létta höftunum af í áföngum fyrr en sá tímafrestur sem beinlínis er getið um í lagatextanum gerir ráð fyrir. Í lögunum er reiknað með að höftin séu til staðar til 31. desember 2015 en gefið í skyn að gengið verði hraðar í verkið og gefin fyrirheit um það þó að óljós séu. Ég verð að minna á að þetta höfum við allt saman heyrt áður. Í hvert skipti sem þessi mál hefur borið á góma og í hvert skipti sem einhver tímafrestur hefur verið ræddur í þessu sambandi hefur alltaf verið gefið til kynna af hálfu ríkisstjórnar og raunar Seðlabanka líka að stefnt sé að því að vinna málin hraðar en sá hámarkstímafrestur gerir ráð fyrir, þannig að það sem fylgir þessu frumvarpi er að því leyti bara endurtekið efni.

Þegar gjaldeyrishöftunum var upphaflega komið á var reiknað með að þau stæðu í tvö ár ef ég man rétt, það var hámarkstíminn sem nefndur var. En allir sögðu: Auðvitað munum við stefna að því að aflétta þeim miklu fyrr. Svo var fresturinn framlengdur frá 30. nóvember 2010 og fram til 31. ágúst í ár. En þá var líka sagt: Auðvitað ætlum við okkur aflétta þessu miklu hraðar en þessi hámarkstími segir til um.

Nú er enn og aftur fresturinn settur rúm fjögur ár fram í tímann, fjögur og hálft ár fram í tímann, og sagt: Jú, jú, þetta er allt í lagi, ekki hafa áhyggjur af þessu, ekki hafa áhyggjur af 2015. Auðvitað ætlum við okkur að aflétta höftunum miklu fyrr. Og því miður hefur reynslan gert mann dálítið tortrygginn að þessu leyti og þegar af þeirri ástæðu, og þó ekki væri út af öðru, hef ég áhyggjur af þessum langa gildistíma, einmitt í ljósi þessarar reynslu, einmitt í ljósi þess að verið er að setja markmið langt fram í tímann og reynslan er sú að sá tímafrestur sem gefinn hefur verið til þessa hefur ekki dugað og fyrirheit um að vinna að afléttingu haftanna fyrr hafa því miður reynst orðin tóm.

Ég vildi segja það við þessa umræðu, sérstaklega vegna þess að við hv. þm. Birkir Jón Jónsson áttum nokkur orðaskipti um það hér áðan, að ég átti vissulega þátt í því sem þingmaður að koma gjaldeyrishöftunum á í lok nóvember 2008. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í upprifjun á þeim degi eða þeim myrku haustdögum 2008 þegar við í þinginu stóðum frammi fyrir afar mörgum umdeilanlegum og erfiðum ákvörðunum. Það sem olli því að ég féllst á þessa leið á sínum tíma var ekki síst sú óvissa sem ríkti á þeim tíma, gríðarleg óvissa um stöðu efnahagsmála, stöðu gjaldmiðilsins, stöðu gjaldeyrisforðans, stöðu fjármálakerfisins og þær aðstæður sem gætu skapast ef gríðarlegir fjármagnsflutningar yrðu skyndilega úr landi eins og menn raunverulega óttuðust á þeim tíma.

Við litum svo á, ég og flokksfélagar mínir, og hygg ég samstarfsmenn okkar í ríkisstjórn á þeim tíma úr Samfylkingunni, að við værum að bregðast við neyðaraðstæðum. Ég sagði sjálfur ítrekað í þingræðum að um væri að ræða neyðarráðstöfun í erfiðri stöðu. Aðstæður væru fullkomlega afbrigðilegar og það neyddi okkur til að grípa til ráðstafana sem við undir öllum venjulegum kringumstæðum mundum ekki láta okkur til hugar koma að styðja. Ég taldi réttlætanlegt, í ljósi þessara fullkomlega óvenjulegu og afbrigðilegu aðstæðna og þeirrar óvissu sem var uppi, að grípa til tímabundinna ráðstafana að þessu leyti.

Auðvitað byggði ég afstöðu mína líka á því að ég taldi að þessar aðgerðir yrðu endurmetnar innan skamms tíma, að um yrði að ræða tímabundið ástand. Þá var ég ekki að hugsa um þau tvö ár sem þá var kveðið á um heldur miklu styttri tíma, kannski einhverja mánuði meðan menn áttuðu sig á stöðunni og óvissan mundi að minnst kosti minnka, að stjórnvöld, þingið og stofnanir ríkisins hefðu tækifæri til að meta stöðuna og bregðast við á yfirvegaðan hátt, þetta var neyðaraðgerð.

Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða á þessari stundu að mat mitt og félaga minna í þáverandi stjórnarmeirihluta í nóvember 2008 hafi verið rétt. Ég held það en ég veit það ekki. Kannski munum við aldrei vita vissu okkar í þeim efnum. En hitt veit ég að nú í byrjun sumars 2011, rúmlega tveimur og hálfu ári síðar, erum við í allt annarri stöðu. Aðstæður eru allt aðrar en þegar við vorum í storminum miðjum haustið 2008. Menn geta ekki haldið því fram að enn sé til staðar sama óvissa og var fyrir hendi þegar gjaldeyrishöftunum var komið á. Við höfum miklu gleggri mynd af öllum lykilþáttum sem máli skipta í þessu sambandi en þá. Við erum ekki í miðjum hvirfilbylnum. Við höfum þar að auki fengið reynslu af framkvæmd haftanna og um leið fundið á eigin skinni, upplifað, þau vandamál sem þau hafa í för með sér. Við getum með öðrum orðum sagt að hvort sem það hafi verið rétt eða rangt að koma höftunum á, eins og gert var í nóvember 2008, getum við ekki notað aðstæður sem uppi voru á þeim tíma sem rök fyrir því að taka nú ákvörðun um að viðhalda höftunum. Aðstæður eru einfaldlega aðrar. Það hvort við viðhöldum höftunum hlýtur að vera sjálfstæð ákvörðun, byggð á þessari reynslu og byggð á þeim hugmyndum sem menn hafa um afléttingu þeirra.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara mikið út í lýsingu á rökunum fyrir því að aflétta höftunum. Þau trufla eðlilega efnahagsstarfsemi, þau trufla starfsemi fyrirtækja, stofnana, sjóða, einstaklinga. Þau eru að þvælast fyrir okkur að mörgu leyti og eru óhentug og óheppileg þegar horft er til þess hvernig við ætlum að byggja upp íslenskt atvinnulíf, fyrir utan skerðingu á ýmsum frelsisréttindum sem þegar hefur verið gerð grein fyrir í þessum umræðum.

Ágreiningurinn er með öðrum orðum ekki um stefnuna heldur um aðferðir og tímasetningar. Í þessari umræðu hefur verið bent á aðrar leiðir en þær sem ríkisstjórn og Seðlabanki hafa lagt fram. Ég bendi á nefndarálit minnihlutahópanna þriggja í efnahags- og skattanefnd. Ég legg mest upp úr áliti flokksfélaga minna, hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Tryggva Þórs Herbertssonar, en ber þó fulla virðingu fyrir góðum hugmyndum og sjónarmiðum hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Birkis Jóns Jónssonar og tel að þær séu vel umræðuverðar, ég er þeirrar skoðunar. Í stað þess að festa höftin í sessi eins og þau eru, og treysta hinni langvinnu eða seinlegu leið sem mörkuð er í áætlun Seðlabanka og ríkisstjórnar um afléttingu haftanna, tel ég að við ættum að vinna að afléttingu þeirra á öðrum grundvelli sem gerir ráð fyrir að við losnum við þau fyrr, miklu fyrr en nú er talað um.

Ég vildi líka, hæstv. forseti, víkja að öðru sem varðar höftin. Það varðar eiginlega grunninn að því að farið er af stað með frumvarp sem felur í sér að efnisreglur, sem nú eru í reglum sem Seðlabankinn setur með staðfestingu efnahags- og viðskiptaráðherra, séu leiddar í lög. Það er einn ókostur að minnsta kosti við að gera það. Það þýðir að svigrúmið til að breyta, væntanlega til þess að rýmka reglurnar eða aflétta einstökum bannreglum eða höftum, er minna, þ.e. það er þyngra í vöfum að létta höftunum af ef þetta er fest í lagatexta en að hafa þetta í reglum Seðlabankans. Þetta er augljós ókostur við að fara þessa leið.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og aðrir á vegum stjórnvalda séu þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt og nauðsynlegt að hafa þessar reglur í lögum frekar en í reglum settum af Seðlabanka, til að styrkja lagagrundvöllinn undir reglunum. Það er hvergi sagt í greinargerð með frumvarpinu og eftir því sem mér skilst hefur það heldur ekki komið fram í störfum efnahags- og skattanefndar en ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra og stjórnvöld almennt hafi áhyggjur af því hvort núverandi fyrirkomulag, þar sem byggt er á því að efnisreglurnar séu í formi reglna frá Seðlabankanum, sé nægilega traust lagastoð, hvort ákveðin sjónarmið, sem snerta þá fyrst og fremst lögmætisregluna, séu uppfyllt með núverandi fyrirkomulagi — hvort það geti til dæmis reynst hæpið í framkvæmd að sækja menn til refsingar á grundvelli núverandi skipunar og hvort þess vegna sé nauðsynlegt að festa viðkomandi ákvæði í lög. Mér þætti vænt um ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gæti komið inn á það því að ég þykist vita að hann hljóti að taka til máls við þessa umræðu.

Er ástæða þess að verið er að færa reglur Seðlabankans inn í lagatexta sú að menn hafi áhyggjur af því að núverandi lagagrundvöllur sé ekki nægilega traustur? Það er mjög forvitnilegt að vita það, það er mjög mikilvægt að það komi fram ef um það eru sjónarmið.

Ég vildi við þessa umræðu lýsa því sjónarmiði mínu, og tek fram að það er ekki byggt á neinum rannsóknum öðrum en því að ég hef aðeins fylgst með þessum málum og reynt að kynna mér reglurnar eins og þær eru, að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að núverandi fyrirkomulag, þ.e. þar sem verulega íþyngjandi reglur eru fyrst og fremst settar fram í reglum Seðlabanka sem staðfestingu hafa hlotið hjá ráðherra, sé tiltölulega veikur grunnur undir reglusetningu af þessu tagi. Ég hef velt því fyrir mér hvort núverandi fyrirkomulag standist ef við horfum til lögmætisreglunnar. Ég hef velt því fyrir mér hvort það standist meðalhóf hvernig þessar reglur eru útfærðar og hvernig þeim er framfylgt. Og maður hlýtur að spyrja sig líka hvort jafnræðisreglan sé virt, sérstaklega þegar horft er til undanþáguákvæðanna þar sem stjórnvöldum er veitt mjög víðtækt umboð til að veita mönnum undanþágu frá stífum bannreglum. Í ljósi þess hljóta að vakna spurningar um hvort jafnræðis sé gætt.

Mér finnst mikilvægt að fá þetta fram. Ef það er mat hæstv. ráðherra eða meiri hlutans í hv. efnahags- og skattanefnd að nauðsynlegt sé að styrkja lagastoð núgildandi fyrirkomulags með því að færa reglurnar í lög, í stað þess að hafa þær í stjórnvaldsfyrirmælum, eru það vissulega rök í málinu. Það breytir ekki því að mér finnst höftin slæm og vil losna við þau en fyrir þá sem ætla sér að halda höftunum við hlýtur þetta að skipta máli. Það hlýtur að skipta máli að þetta komi upp í umræðunni. Það hlýtur að skipta máli að þetta sé rætt. Hver svo sem niðurstaðan verður held ég að þetta séu sjónarmið sem við þurfum að halda til haga.

Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér og ég velti því fyrir mér hvort núverandi fyrirkomulag mundi standast skoðun fyrir dómstólum. Það hefur ekki reynt á það, en væri ég í sporum hæstv. ráðherra og væri ég í sporum þeirra stjórnvalda sem eiga að fylgja þessu eftir mundi ég hafa áhyggjur af því í ljósi þess að dómstólaframkvæmd síðustu ára hefur ótvírætt verið í þá átt að gera stífari kröfur til þess að íþyngjandi reglur hafi skýra lagastoð, að reglur sem eiga að vera forsendur refsinga og annarra viðurlaga hafi skýra lagastoð. Ég verð að játa að í þessum tilvikum finnst mér stoðin harla veik svo að ekki sé meira sagt.

Þetta varðar fyrirkomulagið eins og það er í dag. Þetta varðar fyrirkomulagið eins og það hefur verið. En ef við förum aftur að frumvarpinu sem slíku ítreka ég það sjónarmið sem ég lýsti hér í upphafi að mig óar við því að við séum að framlengja gildistíma gjaldeyrishafta svo langt fram í tímann sem raun ber vitni. Við erum að tala um fjögur og hálft ár frá deginum í dag. Í dag eru tvö og hálft ár síðan gjaldeyrishöftunum var komið upphaflega á. Það gera sex ár. Geta menn haldið því fram að sú óvissa, neyðarástand, hinar ófyrirsjáanlegu og afbrigðilegu aðstæður sem voru fyrir hendi á hinum myrku haustdögum 2008, séu fyrir hendi í sex ár? (Gripið fram í.) Sjö ár, svo að ég sé leiðréttur, (Gripið fram í: Enn verra.) — já, ekki batnar það. Ég verð að játa að mér er fyrirmunað að skilja hvernig menn geta réttlætt slíka lagasetningu.