139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hann fór yfir hvernig við festumst smám saman í viðjum haftanna. Aðlögunarhæfni mannskepnunnar er með eindæmum og ef við mundum viðhalda þessu hugsa ég að fólki þætti orðið sjálfsagt árið 2015 að þurfa að framvísa flugfarseðli til að fá gjaldeyri. Það þætti jafnvel orðið eðlilegt líka að leitað væri á fólki þegar það kæmi til landsins til að athuga hvort það væri með peningabúntin inn á sér eða jafnvel að bankareikningar þeirra væru rannsakaðir eða fólk þyrfti að fara í greiðslumat til að fá gjaldeyri áður en það færi út, hver veit?

Hv. þingmaður kom hér fram með áhugaverðar hugmyndir í sambandi við það sem við höfum reifað í dag, hvernig við getum aflétt þessum höftum á skemmri tíma. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort sá hræðsluáróður sem mér finnst sumir viðhafa um að ef við afléttum gjaldeyrishöftunum á of skömmum tíma muni þetta og þetta gerast, verðbólgan fara af stað, vextir hækka og fleira, (Forseti hringir.) sé ekki svipaður áróður og við heyrðum í (Forseti hringir.) Icesave-málinu, að ef við samþykktum ekki Icesave-samningana kæmi sólin ekki upp á morgun.