139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í raun og veru að fara með smá meðsvar vegna þess að ræða hv. þingmanns var með uppbyggilegum hætti. Ég held að við séum öll sammála um og ég held að það sé almennt viðurkennt að gjaldeyrishöft minnka samkeppni, minnka eftirspurn í hagkerfinu og þar af leiðandi fækkar störfum með tilheyrandi atvinnuleysi. Ég held að það hljóti að vera sameiginlegt markmið okkar allra að afnema þessi höft eins fljótt og verða má. Þess vegna erum við á móti því að festa í lög að 31. desember árið 2015 verði mögulega lokadagur haftanna.

Ég vil því taka undir með hv. þingmanni að við í efnahags- og skattanefnd tökum þessa umræðu, förum í „brain storming“ eins og hv. þingmaður orðaði það, vegna þess að ég held að það séu einir mikilvægustu hagsmunir þjóðarinnar í dag að við tökum höndum saman og afléttum höftunum eins fljótt og verða má. En auðvitað er það draumur sumra stjórnmálamanna að viðhalda höftunum því (Forseti hringir.) að ákveðin völd eru falin í því að geta sett reglur og lög (Forseti hringir.) er snerta þessi mál.