139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður sagði var þetta ákveðið meðsvar. Engu að síður hefur íslenskt atvinnulíf verið mjög arðbært allar götur síðustu 20, 30, 40 árin. Sjávarútvegurinn malar gull þrátt fyrir svo gífurleg höft og lagasetningu að venjulegur sjómaður á bát þarf að vera lögfræðingur. Sjávarútvegurinn malar gull, orkuauðlindin er ónýtt og er mjög arðsöm, verulega arðsöm. Þetta er allt í stoppi í dag út af gjaldeyrishöftunum.

Ég er nærri viss um að fjárfestingar útlendinga færu á flug ef við mundum gefa núna út ákveðna áætlun um að hætta gjaldeyrishöftunum innan þriggja mánaða og menn hefðu trú á því. Það mundi vega upp á móti snjóhengjunni sem færi út.