139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal og ýmsum öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir þær eindregnu stuðningsyfirlýsingar sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og starf hefur hlotið hér við umræðuna. Það er augljóst af orðum fyrrverandi formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að hann telur að ríkisstjórn Íslands hafi unnið þannig úr þeim efnahagsþrengingum sem hér riðu yfir að það megi á tiltölulega skömmum tíma, aðeins þremur mánuðum, afnema gjaldeyrishöftin og leysa úr helstu málum sem nú eru uppi. Það er auðvitað mikil yfirlýsing af hálfu hv. þm. Péturs H. Blöndals um þann árangur sem náðst hefur í efnahagsstjórninni.

Hv. þingmaður talar um að hér eigi að lögfesta gjaldeyrishöftin. Ég verð að inna hv. þingmann eftir því hvort það hafi ekki raunar þegar verið gert og hvort það hafi ekki verið gert árið 2008 og hvort hann sjálfur eða a.m.k. þingflokkur hans og stjórnmálaflokkur hafi ekki m.a. haft forustu (Forseti hringir.) um að lögfesta þessi höft og það til þriggja ára. (Forseti hringir.) Hvort það sé ekki tómt mál að tala um að verið sé að lögfesta þau núna.