139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held að það sé ekki úr vegi að kalla þetta austur-þýsku leiðina, svo mikil er samsvörunin. Hvað varðar spillingarhættuna held ég að hún sé einmitt gríðarlega mikil, rétt eins og sannaðist þegar þessi leið var prófuð í Austur-Þýskalandi á sínum tíma.

Af því að hv. þingmaður nefnir Seðlabankann og það vald sem honum er fært, gerður að ríki í ríkinu, hlýtur maður að velta fyrir sér hvort menn sem eiga eitthvað undir því að fá leyfi til að kaupa gjaldeyri, eiga í einhverjum viðskiptum eða búa jafnvel í útlöndum og þurfa að borga leigu eða hvernig sem það er, séu í aðstöðu til að vera mjög gagnrýnir á Seðlabankann eða stjórnvöld þegar yfirstjórn bankans er í því að fara yfir það hverjir fá gjaldeyri og hverjir ekki.

Ég náði ekki alveg að gera eftirlitinu skil í ræðu minni áðan en á því sviði virðast menn ekki ætla að gefa Austur-Þjóðverjum mikið eftir. Austur-Þjóðverjar, eins og ég rakti aðeins í ræðunni, voru reyndar ekki komnir með jafnþróaða tölvutækni og við höfum nú úr að spila á Íslandi svoleiðis að þeir gátu ekki með góðu móti fylgst með því hvað fólk keypti í verslunum. En nú er þessi tækni til staðar og mér skilst að að einhverju leyti sé verið að nýta heimild til að fylgjast með því hvað fólk kaupir í búðum eða borgar með rafrænum kortum. Líklega þurfa menn að fara að aðlaga sig að þessum nýja veruleika, rétt eins og menn reyndu að aðlaga sig að veruleikanum austan tjalds á sínum tíma, með ýmsum brögðum og nota eingöngu reiðufé ef þeir vilja ekki að stóri bróðir horfi yfir öxlina á þeim. Það er náttúrlega hægt að mistúlka ýmislegt sem menn kaupa sér.