139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég neyðist til að leiðrétta hv. þingmann. Það vill svo til að tengdaforeldrar mínir, frú Guðrún Gísladóttir og Bragi Guðmundsson, ferðuðust til Austur-Þýskalands á sínum tíma og keyptu sér auðvitað gjaldeyri og ferðuðust með hann inn í landið eða skiptu honum þar og versluðu eitthvert smotterí. Síðan þegar þau yfirgáfu landið voru þau spurð af landamæravörðunum hversu mikið þau ættu eftir af austur-þýskum mörkum, ég held að þau hafi heitið það, og þau gáfu það upp en voru leiðrétt af landamæravörðunum vegna þess að það voru njósnarar á hverju strái sem skráðu niður hvaðeina sem gekk á í verslunum og viðskiptum í Austur-Berlín.

Við erum samkvæmt austur-þýsku leiðinni sem hér er rædd og ríkisstjórnin leggur til (Gripið fram í: … komin í.) að koma upp eftirlitsiðnaði sem við viljum ekki sjá. (Forseti hringir.) Ég endurtek að ég trúði ekki (Forseti hringir.) að það gæti átt sér stað á Íslandi árið 2011. Það er fjölmargt annað (Forseti hringir.) sem ég vil ræða í tengslum við austur-þýsku leiðina en það verður að (Forseti hringir.) bíða ræðu minnar.