139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það virðist nánast blasa við að betra sé að fara þessa tiltölulega hröðu leið vegna þess að efnahagslega tjónið af því að viðhalda gjaldeyrishöftunum er svo mikið. Á meðan þau eru til staðar verða ekki til þau verðmæti sem ella gætu orðið. Við nýtum ekki þau tækifæri sem eru til staðar þrátt fyrir allt.

Það sem ég hef helst áhyggjur af er að það komi tímabundið verðbólguskot sem hafi áhrif á lán heimila og fyrirtækja þannig að gera þurfi einhverjar ráðstafanir í þeim efnum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur reyndar ekki áhyggjur af því. Hann bendir á að þrýstingurinn sé ekki eins mikill og menn hafi óttast og því sé ekki ástæða til að hafa af því verulegar áhyggjur. En ef raunin er sú að taka þurfi það með í reikninginn er hægt að gera ráðstafanir í þeim efnum.

Niðurstaðan er sem sagt sú að til lengri tíma litið hlýtur að vera hagkvæmara að afnema höftin vegna þess að einungis þannig getum við farið að skapa þau verðmæti sem við þurfum til að standa undir velferð í landinu. Á meðan höftin eru erum við í þessari sjálfheldu. Höftin koma í veg fyrir þá fjárfestingu sem við þurfum á að halda og sá skortur á fjárfestingu leiðir til þess að ríkisstjórnin þarf aftur ár eftir ár að koma með frumvarp um framlengingu hafta sem svo kemur áfram í veg fyrir fjárfestingu. Þetta er keðjuverkun sem við verðum að rjúfa og það verður einungis gert með afnámi hafta.