139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta snýst nefnilega um hvaða stefnu menn setja í efnahagsmálum til langs tíma. Á hún að vera eins og maður óttast, að við eigum eftir að líta til þess á næsta ári jafnvel eða þarnæsta að þá komi nýtt frumvarp frá ríkisstjórninni um að enn og aftur þurfi að herða höftin af því að nýjar glufur hafi fundist í þeim, sem snúa þá væntanlega að venjulegu fólki sem er að fara til útlanda. Sem betur fer var hætt við þau undarlegu áform hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að ætlast til þess að menn skiluðu klinkinu í viðskiptabankann. Eða hvert átti að skila klinkinu? Ég gat ekki betur séð en að ég hefði þurft að fara með það í Seðlabankann, panta tíma hjá seðlabankastjóra Má Guðmundssyni og afhenda honum klinkið af því að ekki var gert ráð fyrir því að hægt væri að fara með það í viðskiptabankana. Hvers konar endemisvitleysa er að detta þetta í hug?

Þá er ekkert annað í stöðunni en að segja: (Forseti hringir.) Annaðhvort taka menn á þessu strax eða við búum við það (Forseti hringir.) að þau herðast og herðast og við lendum í miklu meiri vandræðum en ella hefði orðið.