139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að fundarstjórn hæstv. forseta er yfirleitt prýðileg. Nú verð ég þó að finna að nokkru við hæstv. forseta, í fyrsta lagi óskuðum við eftir því að forvígismenn ríkisstjórnarinnar yrðu við umræðuna. Við erum reyndar nær eingöngu stjórnarandstæðingar hér sem er mjög dapurlegt vegna að við erum að ræða um (Gripið fram í: Halló, halló, halló.) undirstöðumál — (Gripið fram í: Halló, halló.) Ég er að tala um forustumenn ríkisstjórnarinnar sem eru hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra en ekki hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ég er annars mjög ánægður með að hafi verið viðstaddur þessa umræðu.

Vegna þess að við þurfum að skipuleggja tíma okkar í þingstörfum vil ég líka spyrja hversu langt inn í nóttina hæstv. forseti ætli að halda umræðunni áfram. Ég kveinka mér svo sem ekkert undan því, við erum að ræða mikilvægt mál. Það væri þó gott að fá stjórnarliða með í þá umræðu en ekki ætla ég að kveinka mér undan því að ræða þessi mál ítarlega. Ég held að það sé mjög mikilvægt, frú forseti, að fá svör við þessum spurningum núna (Forseti hringir.) þegar klukkan er farin að ganga 12.