139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi umræða komst á dagskrá á þinginu með tiltölulega skömmum fyrirvara en það er ekki að ástæðulausu sem hér er óskað eftir umræðum um stuðning Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu. Þannig er mál með vexti að þann 27. mars sl. yfirtók Atlantshafsbandalagið stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu á grundvelli ákvörðunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973.

Þessi ákvörðun hafði tímabundið gildi en þann 1. júní sl. var að nýju tekin ákvörðun um að halda aðgerðunum áfram næstu þrjá mánuðina. Aðgerðirnar miða allar að því að vernda líf óbreyttra borgara, að verja þá gegn árásum frá stjórnvöldum í landinu og gera fólki þess lands kleift að koma á nýju borgaralegu skipulagi, kjósa sér sína framtíðarleiðtoga. Ljóst var að einræðisherrann Gaddafí og herir hans höfðu þá þegar beitt nær takmarkalausu ofbeldi til að brjóta á bak aftur hvers kyns andspyrnu og mótmæli við ástandinu í landinu. Hermt er að mótmælin hafi verið orðin mjög fjölmenn upp úr miðjum febrúar sl. Fyrir lok þess mánaðar var áætlað að um 1 þús. manns hið minnsta hefðu látið lífið.

Aðkoma Íslands að þeirri ákvörðun að NATO yfirtaki stjórn aðgerða í Líbíu er í fastanefnd Atlantshafsbandalagsins. Þar eru ákvarðanir teknar með samstöðuákvörðun, á enskunni kallað „consensus“, og full samstaða næst ekki geri eitthvert eitt ríki athugasemdir. Það gerðum við ekki í lok mars og heldur ekki núna 1. júní sl. Samkvæmt því stöndum við Íslendingar sem aðildarþjóð að Atlantshafsbandalaginu með öðrum NATO-ríkjum að þessum aðgerðum. Ég tek fram að ég tel að það hafi verið skynsamleg niðurstaða af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Þegar málið var fyrst rætt í þinginu í lok mars upplýstist að það hafði ekki verið rætt í ríkisstjórn. Leiðtogi annars stjórnarflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sagði í þingsal að honum hefði ekki verið kunnugt um hvernig Ísland færi með atkvæði sitt í ráðinu. Hann sagði einnig að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn. Augljóst var að þessar yfirlýsingar voru kattarþvottur, látið sem Vinstri grænir hefðu ekki vitað af málinu en ef þeir hefðu vitað af því hefðu þeir að sjálfsögðu beitt sér gegn því, enda væru þeir á móti hvers kyns hernaðarbrölti eins og það er gjarnan orðað á þeim bænum.

Eins og áður segir hefur það nú gerst í annað sinn að Ísland á aðild að ákvörðun um aðgerðir NATO í Líbíu og nú er eðlilegt að spurt sé: Gleymdist aftur að tala við Vinstri græna? Gleymdist aftur að taka málið upp í ríkisstjórn eða láta þeir sér, þrátt fyrir að eiga aðild að ríkisstjórninni, það í léttu rúmi liggja að þeir skuli eiga aðild að ríkisstjórn sem framfylgir stefnu sem gengur þvert gegn áherslum þeirra í utanríkismálum? Er ekki rétt að segja hlutina bara beint út, að Samfylkingin hafi sína hentisemi í utanríkismálum, bæði um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og stuðning við aðgerðir NATO, og hvaðeina annað sem skiptir þá máli á þeim vettvangi?

Ég lít ekki á það sem mitt hlutverk að verja trúverðugleika Vinstri grænna sem augljóslega er enginn í utanríkisstefnu þeirra. Mér er þó annt um að ákvarðanir um mál á borð við þetta séu teknar með réttum hætti og að stefna íslenskra stjórnvalda sé skýr, að menn leiki ekki tveimur skjöldum, segist hafa eina stefnu í orði en hafi aðra á borði. Þannig vill til að þeir sem vilja ekki kannast við að eiga aðild að þessu máli eru einmitt þeir sömu og hafa á fyrri tímum haft uppi hvað mestar athugasemdir þegar ákvarðanir eru teknar af íslenskum stjórnvöldum eða Alþingi um stuðning við einstakar aðgerðir. Má ég nefna Íraksmálið í því samhengi? Hér eru á ferðinni sömu menn sem þykjast ekki geta haft nein áhrif, telja að sín stefna hafi engin áhrif og segjast geta staðið til hliðar, sömu menn og stóðu í þessum ræðustól með háværar athugasemdir við þann stuðning sem íslensk stjórnvöld veittu innrásinni í Írak á sínum tíma. Þó var þar um að ræða aðgerð sem íslensk stjórnvöld áttu enga beina aðild að, en hér erum við sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins beinir þátttakendur í þeim aðgerðum sem um er að ræða.

Kröfur þessara manna um rannsókn á aðdraganda þess að Ísland lýsti yfir stuðningi við (Forseti hringir.) aðgerðirnar í Írak verður að skoða í þessu ljósi.