139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni og því sem fram kom í máli hans og ætla ekki að endurtaka það.

Niðurlæging Vinstri grænna í þessu máli er algjör. Fyrst voru þau ekki spurð, en engu að síður gerð ábyrg. Svo voru þau spurð og þau sögðu: Við erum á móti. En samstarfsflokknum var bara óvart alveg sama og þau voru gerð enn þá ábyrgari. Hæstv. innanríkisráðherra er spurður og hann segir: Við erum á móti en við bara ráðum engu af því að við erum í minni hluta. Alþingi ræður þessu. Ég vil benda hæstv. innanríkisráðherra á að fastafulltrúi Íslands talaði ekki fyrir hönd Alþingis, hann talaði fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, allrar, ekki hálfrar.

En það skiptir sem sagt engu máli fyrir kjósendur Vinstri grænna hvort þau eru í ríkisstjórn eða ekki. Stefna þeirra í utanríkismálum er marklaus. Af hverju? Af því að þau eru í minni hluta á Alþingi. Eða hvað? Voru það ekki Vinstri grænir sem tryggðu aðildarumsóknina að ESB? Greiddu þau ekki atkvæði með umsóknarferlinu? Var það ekki VG sem breytti valdahlutföllunum í því máli frá því að það væri minnihlutastuðningur við aðildarumsóknina yfir í að það væri meirihlutastuðningur við umsóknina? Ég held það, mig minnir það.

Niðurstaðan er þess vegna sú að stefna Vinstri grænna skiptir yfir höfuð engu máli. Samfylkingin fær allt fram í þessu stjórnarsamstarfi. VG fórnar allri stefnu fyrir stólana, og kjósendur Vinstri grænna geta fagnað því að það voru Vinstri grænir sem tryggðu ESB-ferlið, tryggðu yfirtöku NATO á aðgerðum í Líbíu og Vinstri grænir sæta væntanlega ákæru dóttur Gaddafís einræðisherra fyrir stríðsglæpi vegna ábyrgðar sem aðili að þeim aðgerðum. Til hamingju, VG, vel gert.