139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir NATO í Líbíu.

[12:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það er hiti í umræðunum hér sem gerist gjarnan þegar allir eru á einhvern hátt sekir og enginn vill játa upp á sig skömmina.

Líbíuloftferðabannið er í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna. Þar er þáttur NATO umdeildur og ákvarðanataka ríkisstjórnar Íslands í málinu er að mínu viti ekki til fyrirmyndar. Mér finnst vera furðulegur leikaraskapur Vinstri grænna í kringum þetta mál. Ákvarðanatakan var mjög hröð og það er mjög óskýrt hvernig hún átti sér stað. Ísland hefði getað beitt neitunarvaldi á vettvangi NATO ef það hefði viljað. Hér er samt ekki við utanríkisráðherrann að sakast, hann hefur sýnt í svörum sínum á Alþingi að hann hefur eindregið stutt allar tilraunir til lýðræðisumbóta í öllum þeim löndum arabaheimsins sem verið hafa í sviðsljósinu undanfarna mánuði. Ég fagna því að hafa utanríkisráðherra sem hefur kjark til að taka þessa afstöðu til umbótatilrauna í lýðræðisátt og fagna þeim kjarki sem hann hefur sýnt, m.a. í málefnum Palestínu. Ég leyfi mér stórlega að efast um að utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði tekið sömu afstöðu í sömu málum.

Það að líkja Líbíumálinu við Íraksstríðið er svo aftur formanni Sjálfstæðisflokksins og flokknum öllum til háborinnar skammar. Það stríð var ámátleg tilraun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, og Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, til að kaupa sér áfram veru Bandaríkjahers á Íslandi. Það stríð var ekki samþykkt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og það er Íslandi til ævarandi skammar hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn beittu sér í því stríði, og að líkja þessu saman þýðir einfaldlega að menn eru að slá hér pólitískar keilur og hafna því að taka þátt í (Forseti hringir.) málefnalegri umræðu um þetta mál.