139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

stuðningur Íslands við aðgerðir Nató í Líbíu.

[12:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að verða við þessari áskorun hv. þingmanns. Af minni hálfu er ekkert því til fyrirstöðu að trúnaði sé aflétt af öllum þeim gögnum sem hugsanlega hafa komið frá utanríkisráðuneytinu til utanríkismálanefndar í gegnum samráð sem tengist Líbíu. Ég hef ekkert að fela í þeim efnum og það veit hv. þingmaður.

Það sem komið hefur fram í þessari umræðu er fyrst og fremst mjög einbeitt viðleitni ýmissa flokka til að koma höggi á VG og saka þá um ósamkvæmni. Ég verð nú að segja það, herra forseti, að ef það er einhver flokkur sem hefur verið samkvæmur sjálfum sér þá er það VG, en ég efast um suma aðra flokka. (Gripið fram í.) Hver er til dæmis afstaða Framsóknarflokksins til þessara aðgerða? Þeir lýstu stuðningi í upphafi. Hver er hún eftir umræður hér í dag? Og hver er afstaða Framsóknarflokksins til Atlantshafsbandalagsins eftir ræðu formanns þingflokks Framsóknarflokksins hér áðan? Þannig að mér virðist nú að það séu kannski fleiri sem séu að seilast um hurð til lokunar í þessum efnum.

Eftir umræðuna liggur þetta: Það er alveg skýrt af hálfu allra þeirra sem hér hafa talað að það er bullandi meiri hluti í þessu þingi fyrir því að sú ákvörðun sem tekin var sé rétt. Það er enginn sem hefur mælt því á móti nema einn flokkur, bara svo að það liggi alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi lýsti ég því nákvæmlega á hvaða grundvelli ég tók þessa ákvörðun, með tilliti til stjórnskipunarinnar, og enginn hefur hafnað þeirri túlkun. Það er líka ákaflega mikilvægt.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson misskilur hlutina ef hann heldur að í þessum efnum dugi það að hæstv. innanríkisráðherra beiti einhverju sem hann kallar neitunarvaldi. Þetta er ekki öryggisráðið. Til að taka af öll tvímæli kom afstaða hæstv. innanríkisráðherra mjög skýrt fram gagnvart utanríkisráðherranum þegar hann flutti þetta mál á ríkisstjórnarfundi. (Gripið fram í.)