139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[12:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og lýst alvarleika þessa máls sem við ræðum. Þetta er mikil hneisa fyrir þingið. Hér kemur framkvæmdarvaldið tveimur mánuðum eftir lokaframlagningarfrest með tvö mál sem vitað er að mikið ósætti er um. Það er vitað að þau mál þurfa mikla umræðu og að þau eru gríðarlega mikilvæg og menn ætlast til að þau séu afgreidd fyrir þinglok. Hvað gerist svo þegar stefnir í að það verði ekki hægt? Í andstöðu við alla umsagnaraðila, ekki bara í andstöðu við stjórnarandstöðuna á þingi, eru málin afgreidd úr nefnd.

Það eru mér sérstök vonbrigði að horfa á hv. þm. Róbert Marshall. Við þingmenn Suðurkjördæmis sátum nefnilega á fundi í gær með fulltrúum úr sjávarútvegi í Vestmannaeyjum. Þar talaði Róbert Marshall (Forseti hringir.) mjög á sáttanótum, að við ættum að hefja okkur upp úr skotgröfunum og vanda vinnubrögð. Hann stendur að þessu nefndaráliti (Forseti hringir.) fyrirvaralaust.

(Forseti (KLM): Ég vil minna þingmenn á að huga að réttum ávörpum í ræðustól Alþingis.)