139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:46]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Núna hefur verið staðfest að ríkisstjórnin telur sig hafa pólitíska hagsmuni af því að ala á sem mestri ósátt um sjávarútveginn. Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan, þegar friðurinn er í boði velur þetta fólk ófriðinn (Gripið fram í.) og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem virðist vera einhvern veginn þannig innréttuð að hún má ekki sjá hurð án þess að skella henni.

Staðreyndin er sú að enginn styður þetta mál, enginn. (Gripið fram í.) Frumvarpið hefur fengið falleinkunn hjá öllum umsagnaraðilum þannig að ekkert var að marka allt tal um einhverja sátt, meira að segja ekki hjá hæstv. utanríkisráðherra sem kom hér eins og friðarins maður og ætlaði að fara að daðra við Framsóknarflokkinn um lausn á málinu. Nú er komið í ljós (Forseti hringir.) að ekkert var að marka það daður frekar en kannski annað sem frá hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) kemur í þessum málum.