139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er greinilega hiti í mönnum þegar varfærinn og orðvar maður eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemur hér og þeytir skít eins og hann sé sokkinn í miðjan fjóshaug þar sem hann á auðvitað ekki heima.

Mér finnst löðurmannlegt af hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar að ráðast að hæstv. forsætisráðherra fjarstöddum með þeim hætti sem þeir gera. (Gripið fram í.) Þeir þingmenn sem sitja í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd verða að bera ábyrgð á gerðum sínum. Það eru þeir sem tóku þær ákvarðanir sem hér er verið að kvarta undan. Hv. þingmenn vita það hins vegar að eftir umfjöllun í nefndinni var gengið til móts við sum sjónarmið, ekki öll, og gerðar voru breytingar á málinu. Ef þær eru ekki nógu miklar skulum við kanna í umræðunni sem fram undan er hvort hægt sé að ná samstöðu um þetta vegna þess að ég held að það sé hægt. Það er sú ályktun sem ég dreg (Forseti hringir.) af umræðunni sem farið hefur fram.