139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd bera ábyrgð á þessari afgreiðslu, segir hæstv. utanríkisráðherra. Það er svo sannarlega rétt. Ég vil fá að grípa niður í viðtal við hv. þm. Björn Val Gíslason á mbl.is, með leyfi forseta. Hann fær spurninguna:

„Ertu sammála þeirri gagnrýni að ekki hafi farið fram nægilega efnisleg umræða um málið í nefndinni?“

„Já, ég er sammála því. Við funduðum ekkert um málið nema með gestum.“

Síðar í viðtalinu:

„Ertu ósáttur við það?“

„Já, ég hefði gjarnan viljað skiptast á skoðunum án þess að vera með gesti inni á gafli. Það er það sem ég er að meina. Það var engin umræða í nefndinni sjálfri nema bara skoðanaskipti við gesti.“

Reynum svo, hv. þm. Þuríður Backman, að kenna stjórnarandstöðunni um þetta. Eigum við ekki að taka málið upp úr skotgröfunum eins og alltaf er verið að tala um og líta í eigin barm? Þetta mál er dautt, þetta er rugl, þetta er drasl sem ber að henda og allir eru sammála um það. Mér heyrist hv. þm. Björn Valur Gíslason meira að segja vera að ýja að því (Forseti hringir.) að hann sé sammála því.