139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög ómaklegt af stjórnarflokkunum og þingmönnum þeirra að koma hér upp og ásaka okkur um málþóf í þessu máli og öðrum. Það er mjög ómaklegt þegar hæstv. utanríkisráðherra talar um að við séum að taka til máls um forsætisráðherra að henni fjarstaddri. Forsætisráðherra hefur ekki sýnt sig í umræðu um sjávarútvegsmálin þrátt fyrir að ítrekað væri eftir því kallað og óskað eftir því að hún sýndi sig á staðnum og tjáði hug sinn. Það er ekki hægt orðið að ávarpa forsætisráðherra í þingsal nema að henni fjarstaddri af því að hún sést ekki hér nema eins og vofa á göngum.

Það getur vel verið að ríkisstjórnarflokkarnir geti vaðið yfir almenning í landinu á skítugum skónum. Þeir geta leyft sér það af því að almenningur hefur ekki vopn til að bera fyrir sig og þar vitna ég til allra þeirra hagsmunasamtaka sem hafa skilað áliti á málinu sem við ræðum hér um og er algjörlega hunsað. En stjórnarandstaðan hefur eitt vopn á þingi, virðulegi forseti, eitt vopn til að koma ríkisstjórninni, þessari aumu ríkisstjórn og flokkum hennar að samningaborðinu (Forseti hringir.) og það er að taka til máls og nýta lýðræðislegan rétt okkar til að tala málefnalega. Þann rétt höfum (Forseti hringir.) við nýtt okkur til að ná mönnum að samningaborðinu þannig að (Forseti hringir.) það verði eitthvert vit í því sem (Forseti hringir.) verið er að gera á hinu háa Alþingi.

(Forseti (KLM): Forseti vill árétta að þingmenn hafa einungis 1 mínútu til að ræða um fundarstjórn forseta og vill biðja menn um að virða þau tímamörk.)