139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil frábiðja mér þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Þuríði Backman. Það er algjörlega óþolandi að þingmaðurinn skuli taka sér þau orð í munn að við þingmenn séum að reyna að tefja mál þegar við ræðum einhver mestu hagsmunamál þjóðarinnar. Það er ekki nóg með að við höfum tekið hér góðar ræður, við ræddum og reifuðum málið mjög vandlega. En ég saknaði þess mjög að heyra ekki stjórnarliða tala meira í 1. umr. um sjávarútvegsmál.

Síðan fer málið til nefndar. Þar koma 16 eða 17 umsagnir, þær eru allar neikvæðar. Allir gestir sem koma til fundar eru neikvæðir út í frumvarpið. Engin efnisleg umræða er í nefndinni og það hefur verið staðfest núna af liðsmanni stjórnarliðsins. Samt er málið tekið út. Af hverju er það tekið út? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Væntanlega til að þjóna einhverjum sérhagsmunum sem skína í gegnum þetta frumvarp.