139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:57]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Undir þessum lið er rætt um málsmeðferðina á hinu svokallaða litla kvótafrumvarpi. Staðið hafa yfir viðræður um það mál í sjávarútvegsnefnd í heila viku og frá því á miðvikudaginn hafa legið á borðinu ákveðnar tillögur um breytingar á frumvarpinu. Nú er búið að fá á fund nefndarinnar fjöldann allan af umsagnaraðilum, setið á gríðarlega löngum fundum fram eftir nóttu og síðan hefur verið brugðist við þeim umsögnum með því að gera umtalsverðar breytingar á frumvarpinu. Það er ekki eins og verið sé að fara með það í gegn í óbreyttri mynd, langt í frá, svo því sé vel til haga haldið.

Ég held að farsælast væri fyrir okkur að taka málið til umræðu í þinginu og heyra hugmyndir stjórnarandstöðunnar um hvernig hægt er að bæta málið enn frekar. Ég er tilbúinn til að hlusta á það.