139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[12:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Mig langaði að koma upp aftur til að upplýsa forseta um aðkomu þessa máls og vinnulag í þinginu frá upphafi. Ég sagði þegar það kom hér inn að ófært væri að afgreiða það á sjö þingdögum.

Hvað hefur komið á daginn? Það er ekki hægt. Þingmenn töluðu um að málið ætti að fá eðlilega þinglega meðferð. Er þetta eðlileg þingleg meðferð? Við höfum setið sólarhringum saman og tekið á móti gestum og umsögnum, fólki sem fékk einn sólarhring til að svara umsögnum um eins alvarlegt og mikilvægt mál og þetta. Er þetta samráð og samvinna? Nei, það er það ekki. Er líklegt að þetta leiði til sáttar? Nei, það er það ekki.

Margt bendir til þess að sú hótanapólitík sem hefur oft einkennt þessa ríkisstjórn hafi tekið völdin í gærkvöldi. Komið var langleiðina að því að ná samkomulagi milli þingmanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og annarra þingmanna (Forseti hringir.) en þá kipptu einhverjir í spottann. Þetta var ekki hægt, er ekki hægt og það verður ekki hægt að klára þetta fyrir þingfrestun, herra forseti.