139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Engar deilur eru um það, held ég, ef menn skoða málið af raunsæi að meðferð þessa máls er algjörlega fyrir neðan allar hellur og ekki til eftirbreytni í öðrum málum. Umsagnaraðilar þurfa að skila inn umsögnum með eins til tveggja daga fyrirvara og allar umsagnir eru neikvæðar en samt á að keyra málið í gegn á þinginu.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að taka það sérstaklega upp í forsætisnefnd hvernig hv. þingmenn mæta á þingfundi og nefndarfundi sem að mínu mati er algjörlega til skammar. Hér sjást sumir ekki dögum og vikum saman. Það er til skammar. Í gærmorgun var fundur í fjárlaganefnd. Þar mættu fulltrúar Seðlabankans, fulltrúar fjármálaráðuneytisins, fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til að ræða erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins. Þegar mætt var á fundinn vissu þeir fulltrúar ekki um hvað ætti að ræða á fundinum. Þetta eru vinnubrögð sem eru til háborinnar skammar. Ég hvet hæstv. forseta til að taka þetta upp (Forseti hringir.) í forsætisnefnd.