139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og þessi umræða ber með sér hefur ríkisstjórnarmeirihlutanum gersamlega mistekist í sambandi við meðferð þessa máls að uppfylla háleitar yfirlýsingar og háleit markmið um vönduð og góð vinnubrögð. Það er í takt við aðdraganda málsins því að þegar þessi frumvörp voru lögð fram á þingi fyrir fáeinum dögum var ljóst að við undirbúning málsins á vettvangi framkvæmdarvaldsins hafði framkvæmdarvaldið ekki náð að uppfylla öll þau háleitu markmið og háleitu kröfur sem mjög er í tísku að hafa uppi hér í þinginu og annars staðar um að menn vandi undirbúning, vinni faglega að málum, virði reglur, tímafresti og annað þess háttar. Nei, nei — ríkisstjórnin féll á prófinu þegar hún lagði málin fram fyrir þingið (Forseti hringir.) og nú hefur meiri hlutinn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fallið á því prófi sem fyrir hann var lagt varðandi meðferð málsins.