139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:10]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bara segja að það eru auðvitað fráleitar samsæriskenningar sem formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kom fram með í ræðu sinni, þ.e. löngu boðaðar umræður um lög um Stjórnarráðið sem var verið að fjalla um og kynna breytingartillögur sem við ætlum síðan að fjalla um frekar í september.

Ég vil líka segja, vegna þess að við erum alltaf að fara aftur á byrjunarreit í þessari umræðu, að það er ekki til umræðu í sjávarútvegs- eða landbúnaðarnefnd eða hér í þinginu hvort kvótakerfinu verður breytt heldur hvernig. Hvort því yrði breytt var svarað í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn verður að átta sig á því. Auðvitað getum við horft fram hjá því þegar fólk missir stjórn á skapi sínu, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði í ræðu sinni áðan í ósigri um málið í einhverjum fúkyrðaflaumi, að þetta væri drasl, ónýtt og rusl. Við leiðum slíkt tal hjá okkur og biðjum hv. þingmann um að telja upp að tíu áður en hún kemur í ræðustólinn og komi með efnislegar tillögur í málinu.