139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við fundarstjórn forseta sem mér finnst alla jafna góð. En ég vil af því tilefni að verið er að ræða hana koma þeirri beiðni fram við forseta og hæstv. forsætisnefnd að við þingmenn og fulltrúar þingflokka reynum að jafna ágreining um þingstörfin á fundum okkar en ekki í ræðustól Alþingis. Ég held að það sé hvorki þeim málum sem hér er verið að ræða til framdráttar né Alþingi Íslendinga, eða okkur sjálfum ef út í það er farið. Ég held að við ættum að fara að dæmi þjóðþinga í öðrum löndum og jafna slíkan ágreining annar staðar en í þingsal.