139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil minna hæstv. forseta á að til stóð að ljúka nefndastörfum með nefndavikunni sem var einhvern tíma á vormánuðum. Nú halda menn áfram, til að mynda í allsherjarnefnd, með alls konar mál og taka allt í einu inn málið um að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í miðri umræðu um sjávarútvegsmálin. En hvað um það.

Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hélt því fram að komið hefði verið til móts við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Málið hefur bara ekkert verið rætt í nefndinni. Það var allt í einu rifið út. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um það áðan að hann hefði haft bullandi meiri hluta fyrir ákvörðun sinni varðandi Líbíu. Það er alla vega ljóst að það hefur verið bullandi meiri hluti sem reif málið úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun vegna þess að ekki hafði átt sér stað nein alvöruumræða um það. Búið var jú að fá mjög marga gesti en þeir höfðu allir, allir sem einn, varað mjög við málinu.