139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

afgreiðsla frumvarps um stjórn fiskveiða.

[13:15]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman kom í ræðustól áðan og talaði um að stjórnarandstaðan talaði í málum sem væru samkomulagsmál. Ég hélt að tilgangurinn með því að hafa þingfundi á Alþingi væri að þingmenn töluðu í málum. Ég er ný, ég viðurkenni það, virðulegi forseti, en ég skildi ekki þessi ummæli.

Svo er annað sem mig langar að koma aðeins inn á. Þetta er allt á sömu bókina lært. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talar enn um að það frumvarp sem hér var rifið út í morgun með látum skapi atvinnu. Ég skil ekki þá umræðu. Það skapar ekki atvinnu (Utanrrh.: Á Suðureyri.) að færa frá einum til annars.

Hæstv. utanríkisráðherra, ekki heldur þar.