139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.

765. mál
[13:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Árið 1999 voru samþykkt lög á Alþingi um opinberar eftirlitsreglur. Lögin ná til reglna um sérstakt eftirlit á vegum hins opinbera með starfsemi einstaklinga og fyrirtækja og var gildissviðið víðtækt. Þó voru undanskilin ýmis svið svo sem almennt stjórnsýslueftirlit, innra eftirlit hins opinbera, löggæsla, tollamál, skattamál og fleira, t.d. atriði er varðar sifjarétt og barnarétt. Markmið laganna var í sem skemmstu máli að stuðla að því að opinbert eftirlit næði tilgangi sínum án þess að það leiddi til mismununar eða takmarkana á athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefðu.

Ég ætla ekki að fjalla um lögin að öðru leyti en vil þó geta þess að þau eru að mínu mati enn í fullu gildi. Þau eiga fyrst og fremst að stuðla að vönduðum vinnubrögðum við setningu laga og reglugerða um margháttaða eftirlitsstarfsemi sem Alþingi og stjórnvöld telja nauðsynlega, en fela í sér mikilvægan áskilnað um meðalhóf í þeim efnum og að upplýsingar um kostnað og áhrif eftirlitsreglna liggi fyrir áður en þær eru samþykktar. Að mínu mati eru lögin því mikilvægt aðhald og um leið liður í því löggjafarstarfi sem fram fór einkum á 10. áratug síðustu aldar sem fól í sér breytingar til að stuðla að betri, formfastari og vandaðri stjórnsýslu.

Forsætisráðherra er falið veigamikið hlutverk í sambandi við framkvæmd reglnanna sem getið er um í lögunum. Þess má geta að meðal þeirra atriða sem kveðið er á um samkvæmt 8. gr. laganna er að forsætisráðherra skuli að jafnaði flytja þinginu skýrslu á þriggja ára fresti um framkvæmd laganna. Það var gert á þingi 2002–2003 og 2005–2006 en síðan ekki söguna meir. Raunar er það svo að um alllangt skeið hefur lítið sem ekkert frést af því hvernig forsætisráðherra hefur fylgt eftir hlutverki sínu samkvæmt lögunum.

Því tel ég, hæstv. forseti, ástæðu til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig þessum málum hafi verið háttað undir verkstjórn hennar undanfarna um 30 mánuði og að hvaða leyti forsætisráðherra hafi beitt sér fyrir því að ákvæðum laganna frá 1999 sé fylgt í framkvæmd.