139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ákvæði laga um opinberar eftirlitsreglur.

765. mál
[13:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Lög um opinberar eftirlitsreglur eru einn þáttur af mörgum sem stuðla eiga að góðum undirbúningi lagasetningar en lögin gera ráð fyrir að þegar settar eru reglur á tilteknu sviði, þ.e. opinberar eftirlitsreglur, eigi að meta þörf fyrir eftirlitið, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Þá skal forsætisráðuneytið hafa yfirsýn yfir slíkar reglur og leitast við að tryggja nauðsynlega samhæfingu og hagkvæmni í eftirliti á vegum hins opinbera. Samkvæmt lögunum skal starfrækja ráðgefandi nefnd um eftirlit á vegum hins opinbera og er hún skipuð til þriggja ára í senn.

Í lok september 2010 samþykkti ríkisstjórnin endurskoðaðar reglur um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa og var þá jafnframt gefinn út nýr gátlisti sem ráðuneytið þarf að fylla út þegar stjórnarfrumvarp er lagt fram í ríkisstjórn. Nýstofnuð skrifstofa löggjafarmála í forsætisráðuneytinu fer yfir öll stjórnarfrumvörp áður en þau eru lögð fram í ríkisstjórn og gefur umsögn um hvernig gæðakröfur hafa verið uppfylltar. Þar á meðal fer skrifstofan yfir það hvort frumvarp feli í sér nýjar eftirlitsreglur og vekur athygli á því ef ekki hefur farið fram mat samkvæmt 3. gr. laga um opinberar eftirlitsreglur.

Ný ráðgjafanefnd var skipuð 1. júní 2010 en skipunartími eldri nefndar rann út nokkru áður. Nokkurn tíma tók að afla nýrra tilnefninga og formaður nefndarinnar er skrifstofustjóri löggjafarmála í forsætisráðuneytinu. Þar eiga einnig sæti fulltrúar ASÍ, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélagsins og hefur nefndin fengið nokkur mál til meðferðar. Í vetur hefur hún fjallað um frumvarp til laga um skeldýrarækt, frumvarp til fjölmiðlalaga, drög að reglugerðum um hámarksmagn transfitusýra í matvælum og merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.

Eins og fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er nú verið að endurskoða þau lög sem fyrirspurnin lýtur að og lögin spruttu tvímælalaust á sínum tíma úr jarðvegi þar sem tortryggni ríkti í garð opinbers eftirlits með starfi fyrirtækja. Bankahrunið hefur auðvitað leitt í ljós að sú hugmyndafræði var á villigötum. Það þýðir ekki að lögin sem slík séu skaðleg enda geyma þau mjög matskenndar reglur og minna fyrst og fremst á að rökstyðja þurfi íþyngjandi reglur fyrir atvinnulífið.

Endurskoðun laganna er vel á veg komin í ráðuneytinu og á vettvangi ráðgjafanefndarinnar. Tvær leiðir hafa þar einkum komið til skoðunar, annars vegar að fella lögin úr gildi og fella gæðastarfið inn í almennt ólögfest gæðastarf á vegum ráðuneytanna undir forustu forsætisráðuneytisins, og hins vegar að skerpa á markmiðum laganna þannig að þau beinist ekki að opinberum eftirlitsreglum sem slíkum, heldur miði að því að hverju sinni sé dreginn fram sá kostnaður og ávinningur fyrir samfélagið sem felst í nýjum reglum er snerta atvinnulífið og jafnvel borgaranna. Eftir sem áður yrði það svo pólitískt mat hvort þau markmið sem að var stefnt með löggjöf réttlæti þann kostnað.

Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns vil ég einnig bæta því við að forsætisráðuneytið mun á næstu vikum fara gaumgæfilega yfir það með öllum ráðuneytunum hvort það gæðastarf sem unnið hefur verið undir forustu skrifstofu löggjafarmála hafi skilað sér og hvernig gera megi enn betur til að tryggja vandaðan undirbúning lagasetningar.