139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

þingmál í tengslum við Sóknaráætlun 20/20.

766. mál
[13:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Á árinu 2009 hófst á vegum ríkisstjórnarinnar vinna við sóknaráætlun fyrir Ísland 20/20 sem vísar til ársins 2020. Þá voru skipaðar ýmsar nefndir og starfshópar og ráðgjafar fengnir til að aðstoða við verkefnið. Yfirlýst markmið var háleitt, að efla atvinnulíf og samfélag um allt land, hvorki meira né minna.

Forsætisráðherra lagði fram á Alþingi þann 21. desember 2009 tillögu til þingsályktunar um þessa Sóknaráætlun 20/20. Hún var tekin til fyrri umr. í þinginu þann 18. febrúar 2010 og að því loknu vísað til allsherjarnefndar. Nefndin hóf umfjöllun um tillöguna, fékk til sín nokkra gesti, en það er sannast frá því að segja að áhugi innan nefndarinnar á framgangi málsins reyndist ekki mjög mikill og hún lauk aldrei umfjöllun sinni. Önnur mál voru einfaldlega tekin fram fyrir og sett í forgang þannig að þingmálinu lauk aldrei á því löggjafarþingi sem hér um ræðir.

Vinnan á vegum ríkisstjórnarinnar hélt hins vegar áfram eins og ekkert hefði í skorist. Við upphaf haustþings haustið 2010 boðaði forsætisráðherra í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að tillagan yrði flutt að nýju. Nú er þessu þingi væntanlega að ljúka, en hæstv. forsætisráðherra hefur ekki lagt fram neitt þingmál í þessa veru.

Þess ber hins vegar að geta að samkvæmt fréttum var rétt fyrir jólin samþykkt í ríkisstjórn plagg eða stefnumörkun undir sama eða svipuðu heiti og eftir því sem best er vitað hefur síðan verið unnið áfram að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. með einhvers konar funda- og ráðstefnuhaldi. Eins og þetta blasir við mér, hæstv. forseti, var í upphafi ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra að hafa Alþingi með í ráðum við mótun þessarar stefnu, a.m.k. taldi ráðherra nauðsynlegt að leita til þingsins haustið 2009 og fá atbeina þess að verkinu. Hið sama virðist hafa verið upp á teningnum í þingbyrjun í fyrra. Einhvers staðar á leiðinni virðist hæstv. ráðherra hins vegar hafa skipt um skoðun og komist að þeirri niðurstöðu að aðkoma þingsins væri óþörf, ríkisstjórnin sjálf væri einfær um að hrinda málinu í framkvæmd, þ.e. víðtækri stefnumótun fyrir atvinnulíf og mannlíf á Íslandi allt til ársins 2020, nokkur kjörtímabil fram í tímann. Svona lítur þetta út.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún og ríkisstjórnin hafi alfarið fallið frá þeirri hugmynd að leggja fram á þingi þingmál til þess að fá atbeina þingsins að þessari stefnumörkun og veita henni styrkari stoð. Ef svo er væri rétt að hæstv. forsætisráðherra greindi þinginu frá ástæðum þeirrar stefnubreytingar ríkisstjórnarinnar.