139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

þingmál í tengslum við Sóknaráætlun 20/20.

766. mál
[13:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ágætlega ýmsum atriðum sem varða Sóknaráætlun 20/20, þ.e. stefnumörkunina Ísland 20/20, en mér fannst hins vegar hæstv. forsætisráðherra ekki svara aðalspurningu minni sem var: Hvers vegna hætti ríkisstjórnin við að leita til Alþingis og fá atbeina þess að mótun þessarar stefnu? Það var greinilega ætlunin í upphafi að fá þingið með í lið til að vinna að þessu máli. Til þess var flutt hér þingsályktunartillaga og átti að gera aftur í fyrrahaust. Það var hins vegar hætt við það og mér fannst hæstv. forsætisráðherra ekki skýra hvers vegna. Hún gat réttilega um það að málið dagaði uppi á fyrra löggjafarþingi, en er það svo að ríkisstjórnin hafi einfaldlega ekki treyst sér til að koma með málið aftur inn í þingið? Var hún hrædd um að Alþingi færi jafnvel að hafa einhverjar skoðanir á þeirri stefnumörkun sem hæstv. ríkisstjórn hafði uppi í þessum efnum? Ég hlýt þá að endurtaka þessa spurningu.

Ég vildi líka spyrja hæstv. forsætisráðherra í tilefni af orðum hennar hvort ekki sé eðlilegt þegar um er að ræða stefnumörkun til langs tíma, 10 ár fram í tímann, að fá atbeina Alþingis að stefnumörkuninni í stað þess að málið sé unnið innan húss á vegum ríkisstjórnarinnar sem eðli málsins samkvæmt hefur skamman setutíma? Hefði það ekki veitt stefnumörkun til langs tíma meira vægi að leita til þingsins?

Að lokum spyr ég hæstv. forsætisráðherra um tengslin við 20/20-áætlun Evrópusambandsins. Það er reyndar athyglisvert að í upplýsingum frá meðal annars hv. efnahags- og viðskiptaráðuneyti, skýrslu sem send hefur verið sem efnahagsprógramm (Forseti hringir.) Íslands, er getið um Sóknaráætlun 20/20 sem mikilvægan lið í aðildarumsóknarferli Íslands. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forsætisráðherra að gera grein fyrir því.