139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

úttekt á stöðu EES-samningsins.

757. mál
[13:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég dreg ekkert af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að öllum meiri háttar utanríkispólitískum ákvörðunum sem varða lýðveldið Ísland og á hrós skilið fyrir framgöngu sína í því. Þess vegna er það undrunarefni að Sjálfstæðisflokkurinn skilji núna ekki sinn vitjunartíma þó að stöku menn hafi að vísu á veikum augnablikum horfst í augu við ljós skilnings að þessu. Ég ætla ekki að nefna nein sérstök nöfn en mér kemur auðvitað til hugar þær sex klukkustundir sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gegndi embætti forsætisráðherra, kom þá í Kastljós og sýndist mér þar vera allt annar maður á ferð en stundum talar hér.

Ég er alfarið sammála hv. þingmanni og það hefur margoft komið fram að ég tel að þingið standi sig ekki nógu vel við að gæta hagsmuna Íslands gagnvart Evrópuþinginu. Þar ekki spurt um atbeina framkvæmdarvaldsins, það verður Alþingi sjálft að taka til sín. Þetta var ein af þeim tillögum sem komu fram í þeirri skýrslu sem ég vísaði til áðan.

Ég mun alveg örugglega í ráðuneyti mínu fylgjast mjög grannt með niðurstöðum norsku nefndarinnar. Það er mjög athyglisverð vinna sem þar fer fram. Ég er viss um að hæstv. innanríkisráðherra mun ekki síður gera það. Það hefur komið fram í máli hans oftar en einu sinni að þó að hann sé á móti bæði ESB og EES þá telur hann þó ESB illskárri kostinn. En þeir ágallar sem hugsanlega munu koma fram í þeirri skýrslu eru nákvæmlega hinir sömu og við eigum við að kljást.

Svo rifja ég það upp, af því ég verð auðvitað var við sterkan vilja hjá Norðmönnum út af pólitísku stöðunni sem þar er til að ná fram breytingum á EES-samningnum til að gera hann skilvirkari og auðveldara um vik fyrir EFTA-ríkin að taka þátt í nýjungum innan ESB, að þetta hefur verið reynt. Forveri minn einn, Halldór Ásgrímsson, reyndi af miklu afli árið 2002 að ná fram breytingum á EES-samningnum en ekki nokkur vilji var fyrir því. Þannig (Forseti hringir.) er staðan núna.