139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel ákaflega mikilvægt að við setjum okkur langtímanýtingarstefnu og aflareglur um sem flestar tegundir og tek þar af leiðandi undir með hæstv. ráðherra. Það er líka mikilvægt, eins og kom fram hjá ráðherra, að um það sé samráð við sem flesta og kannski í anda þess sem maður gæti kallað fagráð um einstakar greinar þar sem kæmu saman hagsmunaaðilar, pólitíkusar og vísindamenn. Það er þó eitt sem mér hefur fundist vanta í þessari umræðu — þegar ráðherra tók ákvörðun upphaflega um 20% aflareglu í þorski fór ekki fram mikil umræða í þinginu, þetta var ákvörðun hæstv. ráðherra eins og ríkisstjórnarinnar en þingið kom þar hvergi að og engin umræða var í samfélaginu — og mér finnst enn skorta á það. Gæti til að mynda verið um einhverja sveigjanleika að ræða í aflareglunni, gæti hún t.d. kannski verið 20–22%? Í þessum sveigjanleika gæti hæstv. ráðherra við útgáfu hennar (Forseti hringir.) jafnframt tekið tillit til efnahagslegra þátta á hverjum tíma.