139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:07]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég staldraði líka við, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði, þetta samráð sem hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði hér um. Hann talar um samráð um framtíðarnýtingarstefnu, um framtíð aflareglunnar og hvort taka eigi hana upp í fleiri tegundum eða hvernig þetta eigi að vera. Samráð við hagsmunaaðila. Það eru sem sagt sömu hagsmunaaðilar og fengu sólarhring til að gera athugasemdir við frumvarp um stjórn fiskveiða sem er til umræðu hér eða er í vinnslu eða var í vinnslu hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég er ekki viss um að þessir aðilar séu kátir og glaðir með orð hæstv. sjávarútvegsráðherra af því að samráð í hans huga er algjörlega nýr skilningur á því orði. Samráð við hagsmunaaðila er sem sagt að leyfa þeim að tala, fá sólarhring, (Forseti hringir.) og berja svo í borðið og segja: Við tökum þetta út en við höfðum samt samráð.