139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda.

515. mál
[14:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi gefur sér þá forsendu að rekstrarstaða íslenskra sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda sé erfið. Vissulega er hún erfið hjá mörgum og einkum hjá þeim sem eru mikið skuldsettir. Margir þeirra hafa átt í viðræðum við banka og lánastofnanir um leiðréttingu lána eins og mönnum er kunnugt um. Þetta á líka við um heimilin í landinu þannig að samhliða aðgerðir hvað varðar heimili og fyrirtæki, til að koma til móts við og bæta skuldastöðuna, hafa einmitt nýst þessum aðilum.

Ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn hafa hins vegar fylgst mjög náið með framgöngu fjármálastofnana við að leysa úr skuldamálum bænda. Í því skyni hafa verið haldnir margir fundir og reglulega hefur verið kallað til fundar með fulltrúum bankanna og Bændasamtökunum þar sem farið hefur verið yfir stöðuna og metið hvaða aðgerðum er verið að vinna að og hvaða möguleikar eru til enn frekari aðgerða. Þessir fundir hafa verið haldnir reglulega og það er vitað hvernig skuldastaða bænda greinist, hún er mjög misjöfn eins og ég sagði áðan.

Varðandi það sem hv. þingmaður velti fyrir sér með búvörusamningana vil ég geta þess að það var eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar að leiðrétta þau brot sem framin höfðu verið á þessum búvörusamningum við fjárlagagerðina 2008 og 2009. Síðan var hluti af þeirri skerðingu sem þar hafði verið boðuð áður dreginn til baka og hluti af þeim verðlagsbótum sem þar hafa verið inni. Um þetta var síðan greitt atkvæði af hálfu bænda og búvörusamningurinn var framlengdur til 2014.

Ég geri ekkert lítið úr því að bændur tóku á sig, fyrstir aðila í eftirleik hrunsins, umtalsverða kjaraskerðingu sem hafði verið umsamin og sýndu þar með gott fordæmi í þeim efnum. Við fjárlög þessa árs var búvörusamningurinn hins vegar varinn, þessi sem atkvæði höfðu verið greidd um. Það tel ég hafa verið mjög mikilvægt og ég beitti mér fyrir því að það væri gert.

Hitt vil ég nefna að sala á landbúnaðarafurðum gengur í sjálfu sér mjög vel. Verðið hefur að vísu verið mjög stöðugt hér innan lands og hefur ekki hækkað í takt við hækkun á aðföngum, sem sýnir annars vegar styrk landbúnaðarins, en hins vegar kemur þetta náttúrlega hart niður á launalið bænda. Þetta sýnir samt hversu mikilvægur landbúnaðurinn er í neyslu matvæla hér á landi.

Útflutningur á lambakjöti hefur til dæmis gengið vel. Á síðastliðnu ári var heildarútflutningur á kindakjöti um 3.400 tonn og fengust fyrir hann liðlega 2 milljarðar kr. Meðalverð var um 616 kr. á kílóið. Þannig að þetta eru mjög góðar fréttir, hvað varðar möguleika á útflutningi á lambakjöti.

Hvað mjólkurframleiðsluna varðar vil ég nefna það hér að sala mjólkurvara gengur líka mjög vel og verður heildargreiðslumark þessa árs 116 milljónir lítra. Þann 1. febrúar síðastliðinn ákvað verðlagsnefnd búvara hækkun á afurðastöðvaverði til bænda um 3,25 kr. á lítra mjólkur, þ.e. úr 71,13 í 74,38, eða um 4,56%. Mjólkurframleiðendur hefðu eflaust kosið að fá meiri hækkun. Ég skil alveg þeirra sjónarmið, en þessi hækkun var engu að síður sameiginleg ákvörðun verðlagsnefndar en í henni eiga sæti fulltrúar atvinnugreinarinnar og líka stéttarfélaga og neytenda í landinu. Hún var afgreidd samhljóða.

Ég vil árétta að ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns um hækkun á aðföngum til landbúnaðarins (Forseti hringir.) og ráðuneytið mun fylgjast vandlega með þróun í skuldaúrlausnum bænda.