139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eyðibýli.

853. mál
[14:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tek mjög afdráttarlaust undir sjónarmið hv. þingmanns um menningarleg verðmæti og gildi mannvistar og húsa á jörðum vítt og breitt um landið. Einn öflugasti þátturinn í uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu hefur einmitt verið að endurvekja og endurgera hús, hvort sem er í þéttbýli, sjávarplássum eða til sveita, og laða fram og kynna söguna að baki. Þetta hefur verið einn mesti aflvakinn fyrir þá atvinnugrein sem hefur kannski vaxið hraðast upp á síðkastið, þessi menningartengda ferðaþjónusta.

Það þarf svo sem að ráða við verkefnin varðandi kostnað og annað. Ég minnist þess eftir setu mína í fjárlaganefnd að þá var einmitt lögð áhersla á að standa við bakið á heimamönnum á svæðunum sem vildu halda til haga, endurgera eða búa út til sýningar slík menningarverðmæti. (BJJ: Undir forustu Framsóknarflokksins.) Ég legg áherslu á að þessu verði haldið áfram. Aflið í heimafólki hvað þetta varðar er mikið, en það þarf bæði fjárstuðning og skilning af hálfu hins opinbera. Ég lagði mitt af mörkum þar og tek þess vegna afdráttarlaust undir sjónarmið hv. þingmanns um að það á að vera á ábyrgð okkar allra að sem best verði staðið að þessum málum.