139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ansi voru þetta rýr svör hjá ráðherranum, sérstaklega í ljósi þess að nú eru lög 151/2010 til rannsóknar hjá ESA. Flokkur manna fór út til þess að kvarta meðal annars yfir ákvæðunum sem er að finna í þeim lögum.

Það var ágætt að hæstv. ráðherra minntist hér á umboðsmann skuldara. Það bárust fréttir af því í vikunni að einungis 22 mál hafi hlotið þar lokaafgreiðslu. Það er ekki hægt að tala um að þetta sé hraðvirk stofnun. Margar fjölskyldur eru í uppnámi vegna þess hversu mjög málin eru dregin á langinn.

Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á þessi lög? Hann talaði hér um að ekki hefði þurft að setja nein reglugerðarákvæði við framkvæmd laganna. Er ráðherrann aldrei í vafa um að þessi lög standist almennar reglur og stjórnarskrá? Hann var (Forseti hringir.) 1. flutningsmaður að því frumvarpi sem hefur nú tekið gildi sem lög og sannað (Forseti hringir.) að þau eru ónothæf.