139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

750. mál
[15:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sem talaði hér síðast, Guðlaugur Þór Þórðarson, ruglar sífellt saman tveimur hlutum, annars vegar er misræmið í endurútreikningunum upp á 3–5% vegna þess hvort menn leggja vaxtavexti við mánaðarlega eða árlega og hins vegar vill hann hafa að innborganir feli í sér fullnaðarkvittun fyrir viðkomandi gjalddögum. Um það atriði er hann annarrar skoðunar en Hæstiréttur, og lög 151/2010 eru akkúrat tilraun til að veita öllum skuldurum þann rétt sem Hæstiréttur kvað á um, hvorki meiri né minni. Ef lengra verður gengið af hálfu Alþingis bakar það ríkinu útgjöld því að í því felst þá upptaka á eignum viðkomandi fjármálastofnana og þá er rétt að menn segi fullum fetum að þeir vilji ganga á eignarrétt fjármálastofnana með þeim hætti að gera þeim að afskrifa skuldir sem Hæstiréttur hefur ekki talið þeim skylt að afskrifa. Það hefur aldrei staðið annað til af hálfu þessarar ríkisstjórnar en að tryggja öllum heimilum sama ávinning og kveðið var á um í dómi Hæstaréttar. Það hefur verið gert.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spurði hvort ég hefði ekki áhyggjur af því hvort lögin stæðust almennar reglur og stjórnarskrá. Ég hef ekki áhyggjur af því. Ég tel þau standast.

Varðandi svör til hv. þm. Eyglóar Harðardóttur er mér bara ekki kunnugt um hvar þau standa. Ég hef ekki fengið þau inn á borð til mín en skal ganga eftir því að þau komi sem fyrst. Því var komið mjög skýrt á framfæri við þingið að einungis stæði til að færa til fólks það sem Hæstiréttur hafði kveðið á um í sínum dómi. Það var ítrekað sagt í ræðustól Alþingis og mjög skýrt tekið fram að við ætluðum aldrei að gera meira en það, við værum ekki að baka ríkissjóði ábyrgð með þessari lagasetningu. Því var afskaplega skýrt sagt komið á framfæri við þingið að það ætti bara að breyta þeim ákvæðum (Forseti hringir.) sem lytu að vöxtum og verðtryggingu.

Að síðustu, hver er þýðing þess að fullnaðarkvittun gildir ekki? Um það verða menn að eiga við Hæstarétt. Hæstiréttur (Forseti hringir.) er búinn að endurreikna lánin frá grunni með þessum hætti og það er sú aðferðafræði sem beitt er í lögunum.