139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að hv. þm. Eygló Harðardóttir hafi komið hér upp því að ef það er rétt sem fram kom í fyrri ræðu hæstv. ráðherra er um mjög alvarlega handvömm að ræða hjá þinginu, þ.e. ef hæstv. ráðherra er ekki gerð grein fyrir fyrirspurn (Gripið fram í.) hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Ég held að hæstv. ráðherra ætti nú að hlusta í stað þess að vera að grípa fram í. Ef hæstv. ráðherra hefði hlustað hefði hann heyrt að ég sagði að það hefði komið fram í fyrri ræðu hans. (Efnahrh.: Óþarfi að gera …) Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort nú er farið að ritskoða sérstaklega ræður hv. stjórnarandstöðuþingmanna en ef svo er, er ekki góður bragur á því.

Talandi um fundarstjórn forseta í þessu samhengi lítur út fyrir að það stóralvarlega mál sem við ætlum m.a. að ræða í utandagskrárumræðu og búið er að bíða með að ræða í margar vikur, og eins svör frá hv. þm. Eygló Harðardóttur, muni ekki verða rætt áður en (Forseti hringir.) þingið gerir hlé. Það er mjög alvarlegt mál því að hér er um gríðarmikla hagsmuni að ræða (Forseti hringir.) og slæmt að framkvæmdarvaldið hafi ekki getað forgangsraðað þannig að við gætum rætt málið í stað þess að ræða minna mikilvæg mál.